Gala kvöldverður til styrktar ungmennum sem hafa glímt við vímuefnavanda var haldinn í Hörpu

Image

Fifteen og Kolabrautin söfnuðu 2,5 milljónum fyrir SÁÁ

-Upphafið að nýju verkefni fyrir ungmenni á leið út á vinnumarkað

 

Þrír matreiðslumenn og vínþjónn frá veitingastaðnum Fifteen í London stóðu fyrir gala kvöldverði ásamt veitingastaðnum Kolabrautinni í Hörpu í janúar. Verkefnið var að frumkvæði Fifteen og er liður í góðgerðaverkefni sem miðar að því að styðja við bakið á íslenskum ungmennum sem glímt hafa við vímuefnavanda og hjálpa þeim að komast út í atvinnulífið. Jamie Oliver stofnsetti veitingastaðinn Fifteen og var eitt aðalmarkmið hans að hjálpa unglingum sem voru á leið út í lífið á nýjan leik eftir vímuefnaneyslu. Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari og framkvæmdastjóri Kolabrautarinnar hefur í gegnum árin unnið með Jamie Oliver og í gegnum þau tengsl varð þetta verkefni að veruleika.

 

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Samtals söfnuðust 2,5 milljónir króna. Um 1,8 milljón í formi aðgangseyris og þá var boðið upp verk eftir Birgi Andrésson sem gefið var af fjölskyldu Birgis og gallerý i8. Verkið seldist á 700 þúsund krónur.

 

Allir sem að þessu verkefni komu gáfu vinnu sína og birgjar gáfu hráefni og var þannig tryggt að fjármunirnir skiluðu sér að fullu til SÁÁ.

Andri Snær Magnason var veislustjóri á Kolabrautinni. Arionbanki var fjárgæsluaðili verkefnisins. Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ tók við peningunum í dag á veitingastaðnum Kolabrautinni í Hörpunni. Fjármunirnir verða notaðir til að hjálpa ungmennum að fóta sig í atvinnulífinu að lokinni meðferð eftir áfengis- og vímuefnaneyslu.

 

Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ;

“Söfnunarfénu verður varið til að efla eftirfylgni við áfengis- og vímuefnameðferð ungmenna til að stytta leið þeirra til virkni í samfélaginu. Margir af þessum krökkum geta plummað sig vel en aðrir þurfa meiri aðstoð. Það eru oftast krakkar sem hafa fallið snemma úr skóla, hafa litla reynslu af vinnumarkaði og þurfa því frekari styrkingu og stuðning til að rata út í samfélagið.”

Jónína Kristjánsdóttir einn eigenda Kolabrautarinnar;

„Þetta tókst eiginlega eins vel og við þorðum að vona. Fólk tók vel í þetta. Bæði að styrkja mjög gott málefni og um leið að fá að prófa eitthvað spennandi frá Fifteen. Við erum mjög þakklát fyrir undirtektirnar og ekki síður þákklát öllum þeim sem gáfu vinnu sína og hráefni til að gera okkur kleift að halda þetta kvöld. Við heyrðum á mörgum sem komu að þessu að þeir vildu að þetta yrði endurtekið. Við erum með það í skoðun. Allir fjármunir sem söfnuðust renna beint til SÁÁ og vonandi koma fleiri fyrirtæki að þessu máli í framhaldinu.“

 

Þessir lögðu verkefninu lið: Harpa tónlistar og rástefnuhús, Ekran, Arionbanki, Ölgerðin, Glóbus, Rjc, Sjófiskur, Kjarnafæði, Bananar, Andri Snær Magnason, Gallerí i8, Þórir Baldursson, Kolabrautin og Frú Lauga.

 

Nánari upplýsingar veita Jónína Kristjánsdóttir Kolabrautinni í gsm 898-1076 og Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ í gsm 821-7515

Myndatexti: Frá vinstri; Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ, Einar Örn Ævarsson frá Arionbanka, sem var fjárgæsluaðili verkefnisins og Jónína Kristjánsdóttir einn eigenda Kolabrautarinnar. Í baksýn er verk eftir Birgir Andrésson listmálara, sem prýðir vegg á Kolabrautinni, en fjölskylda Birgirs og gallerí i8 gáfu einmitt verk eftir Birgir og seldist það á rúmar 700 þúsund krónur. Mynd: Halldór Kristjánsson.

Styrktaraðilar: Harpa, RJC, Globus, Ölgerðin, Ekran, Bananar, Frú Lauga, Sjófiskur, Kjarnafæði, Galleri i8, Arion banki, Andri Snær Magnason, Þórir Baldursson, Kolabrautin.